Uppbyggingu raforkuframleiðslu á Hellisheiði lokið

Í dag var formlega tekinn í notkun síðasti áfangi raforkuframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun þegar tvær 45 megavatta aflvélar voru formlega ræstar.

Þær eru staðsettar skammt frá aðalbyggingu virkjunarinnar og var stöðinni gefið nafnið Sleggjan við athöfnina í dag. Hún stendur við mynni Sleggjubeinsdals, steinsnar frá kletti í sunnanverðum Henglinum sem ber þetta nafn.

Í ávarpi sínu við athöfnina rakti Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), byggingarsöguna og þakkaði öllum sem að verkinu hafa komið. Umsjón með framkvæmdunum hefur verið í höndum OR. Jón Gnarr borgarstjóri var viðstaddur athöfnina í dag ásamt ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins og fulltrúum samstarfsaðila, þar á meðal framleiðanda aflvélanna, Mitsubishi frá Japan og hins þýska Balcke Dürr. Heildarkostnaður við þennan fimmta áfanga uppbyggingar Hellisheiðarvirkjunar er 23,5 milljarðar króna.

Með þessari viðbót er Hellisheiðarvirkjun orðin næst-aflmesta virkjun landsins, alls 303 megavött rafafls. Auk þess eru framleidd þar 133 MW varmaafls, en fyrsti áfangi heitavatnsframleiðslu á Hellisheiði var tekinn í notkun fyrir tæpu ári. Á næstu mánuðum og fram eftir árinu 2012 verður unnið að tiltekt og öðrum umhverfisbótum á svæðinu, þar sem framkvæmdir hafa staðið linnulítið frá vori 2005.

Gert er ráð fyrir tveimur síðari áföngum heitavatnsframleiðslu og verður ráðist í þá eftir því sem þörf krefur. Heildarafl fullbyggðrar virkjunar verður þá 303 MW rafafls og 400 MW varmaafls. Til samanburðar er afl Nesjavallavirkjunar 120 MW rafafls og 300 MW varmaafls. Rafmagnið frá Sleggjunni fer að mestu til Norðuráls á Grundartanga.

Markvissar jarðfræðirannsóknir á virkjunarsvæðinu hófust fyrir réttum áratug en jörðina Kolviðarhól, sem virkjunin stendur á, keypti Reykjavíkurborg árið 1955. Framkvæmdir hófust 2005 og haustið 2006 var fyrsti áfangi raforkuframleiðslunnar tekinn í notkun.

Auk vélaframleiðendanna komu þessi fyrirtæki helst að verki: Mannvit, Verkís, TARK Teiknistofan Arkitektar og Landslag. Undirverktakar voru fleiri. Fyrstu verksamningar vegna Sleggjunnar voru boðnir út 2007 og gerði OR alls 25 samninga vegna verksins. Þegar flest var störfuðu um 600 manns við bygginguna.

Fyrri greinÁgreiningsefni vegna afleiðinga eldgosanna enn til staðar
Næsta greinLandeyjahöfn að lokast