Uppbygging framundan í Hlíðarhaga

Hveragerðisbær. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir.

Samningur milli Borgartúns ehf og Hveragerðisbæjar varðandi uppbyggingu og framkvæmdir í Hlíðarhaga var samþykktur samhljóða á síðasta fundi bæjarráðs Hveragerðis.

Í samningnum er gert ráð fyrir að lóðarhafi muni annast á sinn kostnað allar framkvæmdir á svæðinu þ.m.t. alla gatnagerð, vegtengingu við Breiðumörk samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Hlíðarhaga, frágang opinna svæða, gangstíga, gangstétta og framkvæmda innan deiliskipulagssvæðisins. Um er að ræða lagningu gatna, gangstétta, göngustíga, neysluvatnslagna, fráveitulagna, götuljósakerfis og fullnaðarfrágang umhverfisins, s.s. þökulagningu og gróðursetningu trjáa að undanskyldu leiksvæði sem Hveragerðisbær mun sjá um að framkvæma og einnig eru framkvæmdir umhverfis vatnstank bæjarbúa undanskyldar.

„Til þess að mæta kostnaði við ofangreindar framkvæmdir þá greiðir lóðarhafi ekki gatnagerðargjald til sveitarfélagsins vegna mannvirkja er rísa á því svæði er samkomulag þetta tekur til. Lóðarhafi mun greiða byggingarréttargjald sem nemur 30% af gatnagerðargjaldi til Hveragerðisbæjar svo tryggt sé framlag til tengingar hverfisins við veitur og til annars frágangs á svæðinu,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Í Hlíðarhaga sem er fallegur útsýnisstaður ofan og norðan við byggðina í Hveragerði gerir deiliskipulag ráð fyrir 27 íbúðum af ýmsum toga sem eiga eftir að bætast við fjölbreytta flóru þeirra íbúðakosta sem nú eru í farvatninu í bæjarfélaginu.

Fyrri greinAfmælishátíð í Sundhöll Selfoss á föstudag
Næsta greinLeikmannahópur Hamars stækkar