Uppbygging ferðaþjónustu er langhlaup

Það lætur kannski ekki mikið yfir sér hótelið að Efri-Vík í Meðallandi í Skaftárhreppi frá veginum séð. Þar er hinsvegar risið 64 herbergja hótel, Hótel Laki sem stendur fáum hótelum hérlendis að baki hvað glæsileika varðar.

Ferðaþjónusta hófst í Efri-Vík árið 1972, þá voru leigð út tvö herbergi fyrir ferðamenn. Nú rúmum fjörutíu árum síðar er öll fjölskyldan með einum eða öðrum hætti vinkluð inn í reksturinn og þjónustuna við hina fjölmörgu ferðamenn sem um svæðið fara, allt árið um kring.

Eva Björk Harðardóttir, hótelstjóri segir marga undrast þegar þeir koma inn í hótelið. „Já, það vita kannski ekki margir af okkur og gaman að sjá viðbrögðin,“ segir hún. Uppbyggingin hófst fyrir alvöru árið 2000 þegar Eva Björk flutti ásamt manni sínum, Þorsteini Kristinssyni, aftur á heimaslóðirnar.

„Þá fórum við að tala saman hvort við gætum gert þetta að atvinnu fyrir okkur öll. Við ákváðum að byggja hótel með þima og gera þetta varanlegt. Árið 2005 hófum við að byggja, keyptum steypuvél, gröfu og góð stígvél. Svo fengum við til liðs við okkur arkítekt og smiði og svo fór fjölskyldan út að smíða,“ segir Eva.

Eva Björk segir uppbyggingu í ferðaiðnaði ekki vera spretthlaup. Þannig hafi þau sjálf tekið sinn tíma í uppbygginguna og henni er ekki lokið. „Við erum að vísu hætt að bæta við herbergjum en í sumar fórum við til að mynda út í kostnaðarsamar framkvæmdir eins og að leggja ljósleiðarahingað,svonatilaðkomast inn í 21. öldina,“ segir hún. Talsverð bjartsýni virðist í ferðaþjónustu en Eva Björk segir að mögulega sé um óraunhæfa bjartsýnisbólu að ræða. „Það er ekki snöggur gróði úr þessu, reksturinn er snúinn og mikil vinna falin í því að markaðssetja sig og koma sér upp góðu orðspori.

Alls eru um 40 manns á launaskrá hjá hótelinu yfir sumartímann, en það breytist yfir í tíu til tólf yfir vetrartímann. Þessa dagana sinna þau breskum skólahópum en framundan eru svo jólahlaðborðin og annað hefðbundið starf á sveitahóteli. „Þess utan má segja að við séum komin í fjarskiptabransann,“ segir Eva, því þessa dagana er verið að leggja ljósleiðarann á Kirkjubæjarklaustri, bæði inn á heilsugæslustöðina og elliheimilið.„Það er kannski eitthvað sem maður átti ekki von á,“ sagði hótelstjórinn að lokum.

Fyrri greinÓsáttur við vinnubrögð sjálfstæðismanna
Næsta greinBifreið ónýt eftir eldsvoða