Uppboð fyrir Ágústu Örnu hafið

Uppboð þar sem allt söfnunarfé fer beint til Ágústu Örnu, sem lamaðist í slysi á Selfossi fyrir stuttu, er nú hafið og fer fram á Facebook-síðunni Fyrir Ágústu.

Fyrstu sjö hlutirnir eru komnir inn á síðunni og er nú mögulegt að bjóða í þá með því að senda póst á styrktarkvold@gmail.com.

Þar er að finna áritaðar keppnistreyjur frá handknattleiksmanninum Aroni Pálmarssyni og frá knattspyrnumönnunum Guðmundi Þórarinssyni, Viðar Erni Kjartanssyni og Jóni Daða Böðvarssyni.

Treyjan sem Viðar Örn gefur til uppboðsins er sú sem hann mun nota í fyrsta leik sínum í Evrópudeildinni með Maccabi Tel Aviv gegn FC Zenit Saint Petersburg í kvöld, 15. september. Þá er einnig árituð landsliðstreyjan sem Jón Daði Böðvarsson notaði gegn Úkraínu í fyrsta leik Íslands í undankeppni HM þann 5. september sl., en uppboðinu á henni lýkur á styrktarkvöldinu sjálfu.

Einnig er að finna málverkið Ingólfsfjall eftir listamanninn Hall Karl Hinriksson, ævintýraferð um leynda staði á hálendisslóðum í uppsveitum Árnessýslu fyrir allt að sex manns með Secret Local Adventures og einstaklega spennandi skíðaferðalag með þyrlu á Tröllaskaga með Viking Heliskiing.

Fleiri hlutir bætast svo við á uppboðið eftir helgi, þ.á.m. hótel gistingar á Suðurlandi og fleiri málverk.

Uppboðið er í tengslum við styrktarkvöldið sem haldið verður fyrir Ágústu Örnu í Hótel Selfossi fimmtudagskvöldið 6. október og verður tilkynnt um hverjir buðu best í hlutina á þeim viðburði.

Hægt er að skoða hlutina og finna upplýsingar um þá og uppboðið á facebook.com/fyriragustu.