Unnur ráðin byggðaþróunarfulltrúi

Unnur Einarsdóttir Blandon hefur verið ráðin í starf byggðaþróunarfulltrúa í Skaftárhreppi og tók hún til starfa í byrjun janúar. Unnur er með aðstöðu á skrifstofu sveitarfélagsins á Kirkjubæjarklaustri.

Starf byggðaþróunarfulltrúa er hlutastarf en auk þess starfar Unnur sem stundakennari í Kirkjubæjarskóla auk þess að sjá um félagsmiðstöðina Klaustrið og einnig rekur hún verslunina Random-klausturbúð. Hún hefur búið á Kirkjubæjarklaustri í rúman áratug ásamt fjölskyldu sinni og segist spennt fyrir nýja starfinu.

„Jú, ég er mjög spennt fyrir þessu. Ég fæ að vinna með frábæru fólki hjá SASS sem hafa verið mjög hjálpsöm að koma mér inn í starfið og eins hinir byggðarþróunarfulltrúarnir á Suðurlandi. Hlutverk byggðaþróunarfulltrúa er fjölbreytt en helst má nefna að sinna ráðgjöf og handleiðslu á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar,“ segir Unnur í samtali við sunnlenska.is.

Auk þessi sinnir byggðaþróunarfulltrúinn þekkingar- og upplýsingamiðlun, safnar og greinir upplýsingar um þróun byggðar og sinnir ýmsum svæðisbundnum byggðaþróunarverkefnum.

Fyrri greinBlása lífi í starf Bókabæjanna
Næsta greinRagnar í Smára 120 ára