Unnur fékk jafnréttisviðurkenningu

Unnur Stefánsdóttir, frá Vorsabæ í Flóa, fékk jafnréttisviðurkenningu 31. flokksþings Framsóknarflokksins í dag.

Flokkurinn veitir viðurkenningu ár hvert til þess einstaklings eða stofnunar innan flokksins sem þykir hafa skarað fram úr á sviði jafnréttismála.

„Unnur Stefánsdóttir var kjörin formaður Landsambands framsóknarkvenna árið 1985 og sinnti því embætti til ársins 1993. Hún var vara-formaður samtakanna árin 1983-1985 og var stofnfélagi að samtökunum sem voru stofnuð árið 1981, og eiga því 30 ára afmæli í ár,“ segir í frétt á heimasíðu Framsóknarflokksins.

Unnur hefur einnig látið til sín taka utan flokksins. Hún hafði frumkvæði af því að innleiða heilsustefnu inn í leikskólastarf, og var kjörinn fyrsti formaður samtaka heilsuleikskóla, sem voru stofnuð árið 2006, segir þar enn fremur.