Unnur Brá formaður Vestnorræna ráðsins

Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Suðurkjördæmis var í gær kjörin formaður Vestnorræna ráðsins á ársfundi ráðsins sem haldinn er í Narsarsuaq á Grænlandi.

Unnur tekur við formennskunni af Lars-Emil Johansen, forseta grænlenska Landsþingsins.

Í ræðu sinni á fundinum sagðist Unnur Brá leggja höfuðáherslu á að þrýsta á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að styrkja Norðurskautssamstarf landanna. Hún sagði jafnframt að hún myndi vinna að því að tryggja áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu, en samþykkt var á ársfundinum að sækja um þess slags aðild. Þá sagðist hún ætla að leggja áherslu á að löndin efldu samstarf sitt í heilbrigðismálum og þá sérstaklega það sem hefur í för með sér efnahagslegan ávinning fyrir löndin.

Auk Unnar Brár sitja Lars-Emil Johansen, forseti Landsþings Grænlands, og Bill Justinussen, þingmaður í Færeyjum, í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins. Formaður ráðsins er kjörinn til eins árs.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja. Löndin þrjú skipa sex fulltrúa hvert í Vestnorræna ráðið.

Fyrri greinDagný í hópi þeirra bestu
Næsta grein1.841 gestur á útsýnispallinum við Stað