„Unnið allan sólarhringinn en það dugir ekki til“

Hreggviður Davíðsson í höfuðstöðvum Moseyjar á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Það hefur verið brjálað ástand hjá okkur og enginn tími til eins eða neins,“ segir Hreggviður Davíðsson, eigandi Moseyjar á Selfossi, en fyrirtækið framleiðir meðal annars sótthreinsivörur.

Mosey var stofnað árið 2012 og hefur vaxið og dafnað síðan þá. Flestir kannast við vörurnar frá Mosey, sérstaklega handsótthreinsinn, en það eru kannski ekki allir sem vita að fyrirtækið er staðsett á Selfossi.

„Upphaflega var Mosey stofnað utan um ástandsskoðanir fasteigna. Ég vildi geta leiðbeint fólki án þess að það kostaði allt of mikið. Síðan fórum við að framleiða hreinsiefni fyrir þá aðila sem við vorum að skoða fyrir,“ segir Hreggviður í samtali við sunnlenska.is.

„Það vatt upp á sig og úr varð verksmiðja á Selfossi. Sem stendur erum við þrjú sem störfum í verksmiðjunni og eitt stöðugildi í útkeyrslu. Það er þörf fyrir tíu stöðugildi í framleiðslu og við erum farin að horfa til þess að ráða fólk. Við erum nú þegar með eina vakt í verktöku,“ segir Hreggviður.

Einstakar vörur
„Viðtökur á okkar vörum hafa verið framar björtustu vonum. Vörurnar eru svo sérstæðar að þær eiga trúlega engar samkeppninsvörur. Sem dæmi má nefna að sturtu-, bað- og flísahreinsirinn okkar, ásamt iðnaðarhreinsi og ofnahreinsi, sem byggja á uppleystri kísilsápu. Efnafræðin segir að það sé ekki hægt en við gerum það nú samt,“ segir Hreggviður en hægt er að nálgast vörurnar frá Mosey t.d. í Húsasmiðjunni og Bónus.

„Sótthreinsi- og mygluvarnarvörurnar okkar byggja á filmumyndandi efni, sem hefur þann stórkostlega eiginleika að sameinast mólikúlum úr öðrum efnum. Við erum svo með fjórmettaðar ammonsýrur auk annarra efna, sem sameinast filmuefninu. Allar þessar vörur hafa staðist þá staðla sem þær hafa verið prufaðar í,“ segir Hreggviður en þess má geta að handsótthreinsirinn frá Mosey veitir allt að þriggja tíma vörn og þurrkar ekki húðina.

Sótthreinsivörurnar í forgangi
„Eftir að COVID-19 heilsaði uppá landsmenn, hafa verið vaktir hjá okkur við framleiðslu á sóttvarnarvörum. Það er unnið allan sólarhringinn á tveimur vöktum, sjö daga vikunnar en það dugir ekki til. Eftirspurnin er mun meiri en afkastagetan. Af þeim ástæðum höfum við hætt framleiðslu á öðrum vörum á meðan ástandið er svona. Með því viljum við sýna samfélagslega ábyrgð,“ segir Hreggviður að lokum.

Hjá Mosey er unnið á tveimur vöktum allan sólarhringinn, sjö daga vikunnar, og veitir ekki af. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÁfram íþróttaæfingar hjá börnum og unglingum á Selfossi
Næsta greinÁrborg reynir að halda þjónustunni gangandi í samkomubanni