Unnið að friðlýsingu búsetulandslags í Þjórsárdal

Í Þjórsárdal. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Minjastofnun hefur nú í undirbúningi friðlýsingu búsetulandslags í Þjórsárdal á grundvelli laga um menningarminjar.

Samkvæmt lögunum má friðlýsa samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi.

Aðgerð þessi miðar ekki síst að því að sameina undir eina friðlýsingu allar þær fornleifar í Þjórsárdal sem friðlýstar voru á þriðja áratug 20. aldar. Undir friðlýsinguna falla einnig aðrar þær minjar sem nú eru aldursfriðaðar, 100 ára og eldri, samkvæmt menningarminjalögum, bæði þekktar minjar og þær sem kunna að finnast í framtíðinni og umhverfi þeirra. 

Tilkynning um áformin hefur verið send öllum helstu hagsmunaaðilum, s.s. sveitarfélagi og  landeigendum.

22 bæjarstæði í dalnum friðlýst
Þjórsárdalur hefur sérstöðu vegna þeirra fornu minja sem varðveist hafa í dalnum. Bæjarstæðin 22 sem nú þegar eru friðlýst eru leifar af bæjum sem fóru í eyði á ýmsum tímum af völdum versnandi veðurfars og uppblásturs vegna síendurtekinna eldgosa í Heklu. 

Á svæðinu sem nú verður skilgreint sem ein minjaheild eða búsetulandslag er leitast við að tengja saman hinar ólíku minjar í dalnum. Nefna má leifar eftir iðnað eins og járnvinnslu, kumlasvæði, sel, beitarhús, réttir, garðlög, leiðir og vörður svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta vitnisburður um búskaparhætti í Þjórsárdal á fyrri öldum og fá fornleifarnar þannig meira vægi sem hluti heildar en sem stakar minjar slitnar úr samhengi við umhverfi sitt. 

Öflugustu gosin, sem eyddu byggðinni eru talin vera úr Heklu 1104 og 1300. Gosið sem rak endahnútinn á byggð í dalnum sem nú er í eyði varð í Heklu árið 1693.

Öllum er gefinn kostur á að koma með athugasemdir við áformin til Minjastofnunar, hvort heldur sem er við friðlýsinguna sjálfa, innihald hennar eða umfang. 

Fyrri grein„Náttúruhamfarir á striga“ – Jakob Veigar sýnir í Gallerí Fold
Næsta greinÉg hugsa að það sé svolítið fyndið að vera api