Unnið að hlutafjáraukningu meðal eigenda

Unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu Rangárbakka ehf og Rangárhallarinnar ehf sem eru félög um rekstur aðstöðu hestamanna á Gaddstaðaflötum á Hellu.

Félögin hafa átt við verulegan rekstrarvanda að stríða vegna mikillar skuldasöfnunar í tengslum við landsmót hestamanna sem þar voru haldin árin 2004 og 2008.

Leitast verður við að afla hlutafjár hjá núverandi hluthöfum upp á fjórar og hálfa milljón króna en heimild er til að afla alls um 20 milljóna króna.

Að því er heimildir herma verður mögulega leitað út fyrir núverandi hluthafahóp til að afla frekara fjár. Þá eru viðræður í gangi við viðskiptabanka félaganna og aðra lánadrottna um samninga um útistandandi kröfur á félögin.

Rangárbakkar ehf er að stærstum hluta í eigu hestamannafélagsins Geysis í Rangárvallasýslu en einnig eiga sjö önnur hestamannafélög hlut í félaginu auk nokkurra sveitarfélaga í þremur sýslum. Rangárhöllin ehf er svo að stærstum hluta í eigu Rangárbakka efh.

Fyrri greinSelur hlut sinn á 2 krónur
Næsta greinRör dæluskipsins brotnaði