Unnið að markvissri kynningu

Í dag var undirritaður nýr samningur Sveitarfélagsins Ölfuss við Markaðsstofu Suðurlands til næstu þriggja ára.

Markaðsstofa Suðurlands hefur unnið mikið markaðs- og kynningarstarf fyrir Suðurlandið, bæði innanlands og utan, með sérstakri áherslu á að auka atvinnustarfsemi og gjaldeyristekjur með auknum fjölda gesta og íbúa á Suðurlandi. Sömuleiðis leitast Markaðsstofan við að efla samstarf og upplýsingamiðlun atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkisvalds, bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu sem eru í boði á Suðurlandi.

Í frétt á heimasíðu Ölfuss segir að ávinningur sveitarfélagsins sé mikill með þessum þriggja ára samningi en með honum er hægt að vinna að markvissri kynningu og markaðssetningu á Ölfusinu, þar sem þekking og reynsla Markaðsstofunnar nýtist í samstarfi við þekkingu og reynslu heimafólks.