Unnið að friðlýsingu Viðeyjar

Landeigendur Viðeyjar, eða Minna-Núpshólma í Þjórsá, hafa farið formlega fram á það við við Umhverfisstofnun að eyjan verði friðlýst.

Stofnunin fór fram umsögn Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem ályktuðu báðar um ótvírætt verndunargildi Viðeyjar og leggja til að að eyjan verði friðlýst.

Segir í mati Náttúrufræðistofnunar að „birkiskógur Viðeyjar ásamt því lífríki sem honum fylgir [sé] mjög sérstæður, lítt snortinn og gróskumikill. Gróður í Viðey á sér áreiðanlega langa sögu og þar er því væntanlega að finna erfðalindir frá gamalli tíð. Eyjan öll ásamt þeirri umgerð sem straumþung áin veitir hefur tvímælalaust hátt verndunargildi“.

Þá bendir Landgræðslan á að ef Þjórsá verði stífluð ofan Viðeyjar og rennsli hennar skert, geti það haft „umtalsverð áhrif á jarðvatnsstöðu og þar með gróðurfar eyjunnar.“ Ennfremur muni það auðvelda búfé og fólki aðgengi að eyjunni og því verði að friða hana fyrir búfjárbeit.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemdir við þessar fyrirætlanir.