Ungur ökumaður í akstursbann

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði 32 ökumenn í liðinni viku fyrir hraðakstursbrot. Af þeim var einn ungur ökumaður, sem áður hafði gerst brotlegur, fór yfir fjóra punkta í ökuferilsskrá og var því settur í akstursbann.

Hann ók bifreið sinni með 136 km/klst hraða á Eyrarbakkavegi á mánudaginn í síðustu viku en á þeim vegi er leyfður hámarkshraði 90 km/klst. Akstursbann í þessum tilvikum er ótímabundið og gildir þar til viðkomandi hefur setið sérstakt námskeið til að bæta úr þekkingu sinni á akstri.

Fjórir eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja í síðustu viku. Ástand þeirra var misjafnt, allt frá því að blása rétt við leyfð mörk í það að geta illa tjáð sig eða staðið vegna vímu sinnar.

Fyrri greinJapanskur dagur fyrir alla fjölskylduna
Næsta greinHamar gaf eftir í seinni hálfleik