Ungur drengur fótbrotnaði við Seljalandsfoss

Ferðamenn við Seljalandsfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Hellu, Hvolsvelli og undan Eyjafjöllum voru kallaðar út fyrr í dag vegna slyss við Seljalandsfoss.

Þar féll ungur drengur og leikur grunur um að hann sé fótbrotinn. Svo virðist sem hann hafi fallið um 15 metra í hlíðinni við hlið Seljalandsfoss.

Drengurinn er nú kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem mun flytja hann á Landspítalann við Fossvog.

Björgunarmenn voru skjótir á staðinn og þurftu þeir að setja upp fjallalínur til að flytja drenginn niður hlíðina. Alls tóku um 10 björgunarmenn þátt í aðgerðinni auk lögreglu, sjúkraliðs og starfsmanna Landhelgisgæslu.

Slystaðurinn er á erfiðum stað við fossinn svo setja þurfti upp fjallalínur til að koma honum niður á jafnsléttu og í sjúkrabíl.

Fyrri greinTanja ráðin yfirþjálfari
Næsta greinGunnlaug ráðin skólastjóri í Flóaskóla