Ungt par frá Hollandi lést á Lyngdalsheiði

Parið sem lést í umferðarslysi á Lyngdalsheiðarvegi í gær var frá Hollandi, karlmaður fæddur 1992 og kona fædd 1995.

Þau óku bíl sínum, lítilli sendiferðabifreið, til vesturs, frá Laugarvatni, og virðist sem hann hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og lent framan á vörubifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Aðstæður á vettvangi til aksturs voru góðar, vegurinn auður og þurr og bjart í veðri.

Beðið er niðurstöðu krufningar auk þess sem unnið er að rannsókn ökutækjanna, athugun á ætluðum ökuhraða þeirra og úrvinnslu gagna sem aflað var á vettvangi slyssins. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að ljóst sé að rannsóknin muni taka nokkurn tíma.

Lögreglan naut aðstoðar hollenskra yfirvalda við að upplýsa aðstandendur hinna látnu um slysið.

Fyrri greinÖruggt hjá FSu í lokaumferðinni
Næsta greinGrátlegt tap í bikarnum