Ungmenni sluppu ómeidd úr hörðum árekstri

Mjög harður árekstur varð á Engjavegi á Selfossi í hádeginu í gær til móts við Hjarðarholt. Átta ungmenni sluppu þar án teljandi meiðsla.

Bílunum var ekið úr gagnstæðum áttum eftir Engjaveginum og lentu þeir framan á hvor öðrum. Fimm voru í öðrum bílnum og þrír í hinum.

Mikil mildi þykir að ekki skyldi verða þarna stórslys en meiðsl á fólki eru talin minniháttar samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi. Bílarnir eru báðir ónýtir.

Tildrög slyssins liggja ekki fyrir en lögreglan rannsakar þau.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu voru kallaðir út til að hreinsa vettvanginn.