Ungmenni í Árborg fá áheyrnarfulltrúa í nefndum

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær að heimila fulltrúum Ungmennaráðs Árborgar að eiga áheyrnarfulltrúa í tilteknum fagnefndum sveitarfélagsins.

Hugmyndin kviknaði hjá Ungmennaráði Árborgar en Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, flutti tillöguna á fundi bæjarstjórnar. Hún var samþykkt samhljóða og verður erindisbréfun og samþykktum sveitarfélagsins breytt í kjölfarið.

Í greinargerð með tillögunni segir að nokkur sveitarfélög hafi opnað á þetta og í flestum tilfellum eigi ungmennaráð áheyrnarfulltrúa í íþrótta- og menningarnefndum sem og fræðslunefndum. Seltjarnarnes sker sig þó úr varðandi þetta en þar hefur ungmennaráðið áheyrnafulltrúa í öllum nefndum nema félagsmálanefnd.

Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar, segir að Ungmennaráð Árborgar hafi verið mjög virkt undanfarið ár og ungmennin hafi mikinn áhuga á að taka þátt í starfinu og hafa áhrif á sitt samfélag.