Ungmenni gripin með kannabis

Lögreglan á Selfossi hljóp uppi ungmenni sem hafði í fórum sínum lítilræði af kannabis og neyslutól aðfaranótt sl. sunnudags.

Lögreglu barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í grennd við Húsasmiðjuna á Selfossi. Lögreglumenn fóru þegar á staðinn og sáu þar til ferða ungmenna sem lögðu á flótta er þau urðu lögreglunnar vör en eitt þeirra náðist á hlaupunum.

Annað tilvik kom upp seint á föstudagskvöld þegar lögreglumenn komu að fimm ungmennum á baklóð á Tryggvagötu á Selfossi þar sem áður var leikskólinn Glaðheimar. Við nánari athugun kom í ljós að þau voru að reykja hass. Tveir piltar í hópnum voru með smáræði af hassi. Hald var lagt á fíkniefnin og mál þeirra verður sent til ákæruvalds til frekari ákvörðunar. Þrír úr hópnum voru yngri en 18 ára. Þeim var komið í hendur forráðamann og barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um afskiptin.

Fyrri greinVar á leiðinni að kaupa sköfu
Næsta grein600 keppendur á fimleikamóti