Ungmenni þinguðu í Árborg

Ungmennaráð Sveitarfélagsins Árborgar hélt ungmennaþing í Pakkhúsinu á Selfossi á dögunum.

Þingið sem var öllum opið var ætlað til að gefa ungu fólki tækifæri til að ræða málefni sveitarfélagsins og koma sínum skoðunum á framfæri við bæjaryfirvöld sem og aðra sem hlut gætu átt að máli.

Um 25 ungmenni komu saman í Pakkhúsinu og skiptu sér í þrjá hópa og ræddu meðal annars um skólamál, samgöngur, menningu, tómstundir, atvinnumál ungs fólks og sýnileika ungs fólks í sveitarfélaginu. Fjölbreyttar og skemmtilegar umræður mynduðust og greinilegt að unga fólkið í sveitarfélaginu er tilbúið að láta til sín taka.

Fram kom meðal annars að bæta þyrfti aðstöðu fyrir hjólabrettaiðkendur, samgöngur milli Eyrarbakka, Stokkseyrar og Selfoss mættu vera tíðari með strætó sem og að spjaldtölvuvæða skólana. Ungmennaráðið með hjálp starfsmanna mun síðan gera skýrslu um þingið og skila til bæjaryfirvalda fljótlega.

Fyrri grein250 þúsund í Sesseljuhús
Næsta greinMixlið Selfoss sigraði örugglega