Ungmennaráð skipað í Hveragerðisbæ

Fyrsta ungmennaráðið hefur verið skipað í Hveragerði en í því sitja sjö ungmenni á aldrinum 16-20 ára.

Á fundi bæjarstjórnar þann 9. september síðastliðinn voru samþykktar vinnureglur fyrir Ungmennaráð Hveragerðisbæjar. Markmið ungmennaráðs er að veita þeim sem eru 20 ára og yngri fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim kleift að koma skoðunum sínum á framfæri við viðeigandi aðila.

Hlutverk ungmennaráðs er að efla tengsl ungmenna í bæjarfélaginu og auka tengsl þeirra við stjórnkerfi bæjarfélagsins. Ungmennaráð er ráðgjafi bæjarstjórnar um málefni ungs fólks og skal bæjarstjórn hafa við það samráð um málefni ungmenna. Ungmennaráð kemur ábendingum til bæjarstjórnar varðandi það sem betur má fara er varðar málefni ungmenna eins og hagsmuni og aðstæður ungmenna.

Í ungmennaráði eiga sjö fulltrúar sæti, fjórir úr nemendaráði grunnskólans og þrjú ungmenni á aldrinum 16 – 20 ára valin af menningar-, íþrótta- og frístundanefnd. Á fundi menningar-, íþrótta- og frístundanefndar þann 12. október sl. lagði nefndin til að eftirfarandi sjö fulltrúar skipi fyrsta ungmennaráð bæjarins: Aron Karl Ásgeirsson, Árni Þór Steinarsson Busk, Bjarki Jón Heimisson, Brynja Benediktsdóttir, Ester Lóa Guðmundsdóttir, Kristín Munda Kristinsdóttir og Óli Þór Skaftason.

Fyrri greinÁtak í skráningu fasteigna
Næsta greinGrunsemdir beinast að fyrri eigendum