Ungmennaráð Árborgar fundaði með bæjarstjórn

Mánudaginn 19. september var árlegur fundur ungmennaráðs Árborgar með bæjarstjórn sveitarfélagsins. Ráðið lagði fjölmargar tillögur fyrir bæjarstjórnina.

Á fundinum kemur ungmennaráð með tillögur að verkefnum ásamt fyrirspurnum til bæjarstjórnar sem aðilar reyna svo að vinna að sameiginlega.

Á fundinum lögðu fulltrúar ungmennaráðsins m.a. fram tillögur um bíllausa viku í Árborg, vinna að því að gera Árborg plastpokalaust samfélag, auka fræðslu til ungmenna um stéttarfélög og geðheilbrigði, koma upp aksturíþróttasvæði sem væri hægt að nota undir ökukennslu og virkja lífsleiknitíma í grunnskólum betur. Ráðið lagði einnig fram fyrirspurn um menningarsalinn í Hótel Selfoss og lagði áherslu á að það þyrfti að koma salnum í nothæft ástand.

Öllum þessum málum var vísað áfram til frekari vinnu.

Ungmennaráðið stendur síðan í ströngu þessa dagana að skipuleggja ráðstefnu ungmennaráða á Suðurlandi sem verður haldin á Hvolsvelli 28.-29. september nk.

Fyrri greinVillikettirnir og vegferð VG
Næsta greinOlgeir heiðraður í Áfangagili