Ungmennabúðir UMFÍ opna á Laugarvatni í haust

Framkvæmdir standa yfir við íþróttamiðstöðina um þessar mundir.

Ungmennafélag Íslands flytur hluta starfsemi sinnar á Laugarvatn í sumar og opnar þar Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ næsta haust. Búðirnar verða í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni.

Ásamt því fá íþrótta- og ungmennafélög víða af landinu tækifæri til að nýta sér aðstöðuna í húsinu.

Fulltrúar Bláskógabyggðar og UMFÍ munu undirrita samning þessa efnis næstkomandi  fimmtudag, þann 7. mars klukkan.

Ungmennabúðir í 14 ár
UMFÍ hefur starfrækt Ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum í Sælingsdal frá árinu 2005 fyrir nemendur 9. bekkjar grunnskóla. Nemendurnir dvelja í búðunum viku í senn. Þar er lögð áhersla á útiveru og félagsfærni. Aðsókn­in hefur aukist á hverju ári og eru 2.100 nemendur úr meira en 50 grunnskólum víða af landinu bókaðir í ungmennabúðunum í vetur og fram á vor. Ekki er gerð ráð fyrir miklum breytingum á fyrirkomulagi búðanna þrátt fyrir flutninginn til Laugarvatns.

Framkvæmdir standa yfir í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni til að gera hana klára fyrir haustið. Allt er í göngufæri á Laugarvatni en frá íþróttamiðstöðinni eru aðeins nokk­ur hundruð metr­ar í íþrótta­hús og sund­laug og marg­vís­lega aðra þarfa aðstöðu.

Fyrri greinKonur velkomnar á karlakvöld
Næsta greinSögusýning um Litla-Hraun opnuð á byggðasafninu