Unglingalandsmótið á Selfossi verður kolefnisjafnað. Jöfnunin felst í því að gróðursettar voru tvær trjáplöntur fyrir hvern þátttakenda á mótinu síðastliðinn föstudag. Gróðursetningin fór fram á Svarfhólsvelli, golfvellinum á Selfossi.
Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni, fékk hugmyndina að kolefnisjöfnuninni þegar hann var á mótinu á Hornafirði 2019 með fjölskyldu sinni.
„Þegar ég sá öll farartækin sem þar voru saman komin og fékk ég þá hugmynd að kanna áhugann á því að kolefnisjafna mótið með gróðursetningu trjáplantna. Við ræddum þetta á kaffistofunni hjá Skógræktinni og var hugmyndinni komið á framfæri við HSK sem tók vel í hana,“ segir Hreinn.
Með þessu framtaki séu slegnar nokkrar flugur í einu höggi. „Í fyrsta lagi kolefnisjöfnum við auðvitað mótið á næstu árum og áratugum eftir því sem trén vaxa, við búum til skjól fyrir golfara og vonum svo auðvitað að þetta verði framvegis gert í gróðurreitum víða um land sem tileinkaðir verði ákveðnum viðburðum UMFÍ,“ segir Hreinn.
Framkvæmdanefnd Unglingalandsmótsins á Selfossi fékk styrk úr Umhverfissjóði UMFÍ árið 2020 til að kolefnisjafna mótið og er það samstarfsverkefni Skógræktarinnar, HSK, Golfklúbbs Selfoss, mótshaldara Unglingalandsmótsins.