Unglingalandsmót skilar miklu til samfélagsins

Þórir og Sveinn handsala samninginn. Ljósmynd/UMFÍ

„Við í Björgunarfélagi Árborgar erum þakklát að geta loksins tekið þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi. Þetta er þriðja tilraunin. Í hinum tveimur var mótinu frestað vegna faraldursins,“ segir Sveinn Ægir Birgisson, varaformaður Björgunarfélags Árborgar.

Hann skrifaði á uppstigningardag undir samning með Þóri Haraldssyni, formanni unglingalandsmótsnefndar, um vinnu við Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Sveinn segir að það sé mikil vinna sem fari í gang nokkrum dögum fyrir mót. „Við byrjum að setja upp samkomutjald og gera tjaldsvæðið klárt. Síðan munum við sinna gæslu á Unglingalandsmótinu, gæta að gestum á tjaldsvæði mótsins og stýra flugeldasýningu. Þarna er vant fólk á hverjum stað,“ segir Sveinn Ægir sem telur að hátt í 40 manns á vegum félagsins muni vinna við mótið með einum eða öðrum hætti um verslunarmannahelgina.

Sveinn segir að í raun hafi undirbúningur fyrir Unglingalandsmótið verið langt kominn þegar því þurfti að fresta bæði árið 2020 og aftur í fyrra, en þá var búið að raða fólki niður á vaktir. Nú þurfi að dusta rykið af planinu og kanna hvort félagarnir séu ekki klárir.

„Þetta er skemmtilegt verkefni og hristir okkur saman í björgunarfélaginu. Þetta er líka gott fyrir nýliðana í félaginu. En mótið skiptir okkur líka máli því það skilar svo miklu til samfélagsins. Í okkar tilviki gengur fjármagnið upp í kaup félagsins á ýmsum búnaði sem nýtist okkur, báti og fleiru. Það sama gildir um fleiri þætti, bæði á Selfossi og fyrir aðildarfélög HSK,“ segir Sveinn.

Fyrri greinForsetinn heimsótti Skaftárhrepp
Næsta greinUmfangsmikil verkefni framundan hjá nýrri bæjarstjórn