Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn

Ungir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi skora á þingmenn flokksins í kjördæminu og aðra þingmenn flokksins að greiða ekki atkvæði með Icesave frumvarpinu sem liggur nú fyrir Alþingi.

Jafnframt skora undirritaðar ungliðahreyfingar flokksins í suðurkjördæmi á miðstjórn flokksins að beita sér fyrir því að nú þegar verði boðað til Landsfundar þar sem m.a. umboð formanns og varaformanns flokksins verði kannað. Í millitíðinni verði nú þegar boðað til flokksráðsfundar þar sem málið verði tekið fyrir.

“Þingmenn flokksins starfa í umboði kjósenda og því má aldrei gleyma. Kjósendur flokksins halda mjög öflugan landsfund sem, líkt og formaður flokksins sagði í ræðu sinni á 39. landsfundi flokksins að væri sterkasta mótunarafl í stjórnmálum á Íslandi. Jafnframt sagði formaður flokksins eftirfarandi í ræðu sinni „Og það er hér, á landsfundi, sem stefna er mótuð og það er hér sem ákvarðanirnar hafa verið teknar sem hafa haft gifturík áhrif á framtíð Íslands og Íslendinga. Höfum þetta hugfast þegar við hefjum störf okkar á þessum fundi.“ Það er því með öllu óskiljanlegt að þingmenn flokksins skuli sýna af sér slíka vanvirðingu gagnvart fundarmönnum að ganga gegn landsfundarsamþykkt 39. landsfundar þar sem segir að Sjálfstæðisflokkurinn segi NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave málinu. Landsfundur flokksins er með öllu óþarfur ef staðið sé að málum með þessum hætti,” segir m.a. í ályktun sem félögin sendu frá sér í gær.

“Ekki er enn útséð með hvort að íslenskum skattgreiðendum beri að greiða þessa peninga. Þar til að þeirri grundvallarspurningu er svarað getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki staðið undir því að styðja slíka skuldabyrði sem lögð verður á almenning. Í ungliðahreyfingum Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu eru vel á annað þúsund einstaklingar. Þeir þingmenn sem greiða atkvæði með Icesave frumvarpinu sem nú liggur fyrir starfa ekki í okkar umboði. Kjósi þingmenn flokksins með þessu frumvarpi, gegn landsfundarsamþykkt flokksins, skulu þeir umsvifalaust segja af sér,- enda sé þá bersýnilega auðveldara að vera innundir hjá ríkisstjórninni en að virða vilja flokksmanna,” segir ennfremur í ályktuninni.

Undir ályktunina rita Eyverjar f.u.s í Vestmannaeyjum, Askur f.u.s í Hveragerði, Skaftfellingur f.u.s í Hornafirði, Loki f.u.s í Garði, Sandgerði og Vogum, Heimir f.u.s í Reykjanesbæ, Hersir f.u.s í Árnessýslu, Freyja f.u.s í Grindavík og Fjölnir f.u.s í Rangárvallasýslu.