Ungir bíókóngar á Selfossi

Fyrirtæki í eigu Axels Inga Viðarssonar hyggst opna Selfossbíó aftur í sumar en Sambíóin hættu bíórekstri í Hótel Selfoss í október á síðasta ári.

Axel Ingi og Marínó Geir Lilliendahl, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, vinna nú hörðum höndum að því að standsetja bíóið sem frumsýna mun myndir frá öllum rétthöfum landsins á sama tíma og þær eru frumsýndar í Reykjavík. „Ég hefði ekki ráðist í þetta öðruvísi. Þetta þýðir að Sunnlendingar hafa ekkert að sækja yfir heiðina þegar kemur að bíóupplifun,“ sagði Axel í samtali við Sunnlenska.

Keyptur hefur verið nýr og fullkominn sýningarbúnaður í bíóið og er nú beðið eftir að hann komi til landsins. Með nýju tækjunum gefst m.a. kostur á að sýna myndir í þrívídd en það hefur ekki verið í boði síðustu ár á Selfossi.

„Við erum að gera þetta fyrir Sunnlendinga. Ef fólk mun ekki mæta núna þá er ólíklegt að þetta verði gert aftur,“ segir Axel og bætir við að hann hafi fundið fyrir mikilli þörf á að bíóið myndi opna aftur. Til að mynda hefur Sveitarfélagið Árborg keypt miða fyrir öll grunnskólabörn í sveitarfélaginu og hyggst bjóða þeim í bíó næsta vetur.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu í dag

Fyrri greinKríuvarpið ekki svipur hjá sjón
Næsta greinFrábær árangur Lilju í Skotlandi