Undrast yfirlýsingar um virkjanaáform án samráðs við Hvergerðinga

Í Ölfusdal. Ljósmynd/Christopher Lund

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar undrast „hálýstar yfirlýsingar“ fulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss fyrr í vikunni um virkjanaáform í Ölfusdal og samstarf Orkuveitu Reykjavíkur, Sveitarfélagsins Ölfuss og Títans án nokkurs samráðs eða aðkomu Hveragerðisbæjar að því máli.

Þetta kemur fram í bókun sem bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti samhljóða í gær á fundi sínum.

„Eins og fram hefur komið er Ölfusdalur að stærstum hluta í Hveragerði og að minnihluta í Ölfusi. Það er furðulegt að fara af stað með slík áform án þess að Hveragerðisbær eigi aðkomu að málinu því ljóst er að virkjanaframkvæmdir munu hafa mest áhrif á íbúa Hveragerðisbæjar. Í þessu samhengi má nefna þau óþægindi sem íbúar Hveragerðis og nágrennis hafa orðið af borholum á Hellisheiði, með aukinni jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar, loftmengun og hávaðamengun sem berst íbúum þegar borholurnar eru látnar blása,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Í Ölfusdal er að finna fjölbreytta aðstöðu til útvistar og íþrótta, má þar nefna að golfvöll, knattspyrnuvöll, sviflínu og gönguleiðir, meðal annars upphaf gönguleiðar inn í Reykjadal sem tugþúsundir ferðamanna fara á hverju ári. Í bókun bæjarstjórnar Hveragerðis segir að í undirbúningi sé frekari uppbygging í Ölfusdal í þágu útivsitar og nálægðar við náttúruna. Umræður og ákvarðanir um virkjanir í og við náttúrperlur eins og Ölfusdal, og í næsta nágrenni við íbúabyggð, séu því mál sem þarf að vanda sérstaklega vel til og hafa víðtækt samráð við íbúa og ferðaþjónustuaðila.

„Hveragerðisbær leggst gegn því að rannsóknarleyfi verði veitt í Ölfusdal fyrr en náið og eðlilegt samráð hefur verið haft við sveitarfélagið og íbúa þess um þessa framkvæmd. Því er beint til umræddra aðila og stjórnvalda að tryggja aðkomu Hveragerðisbæjar að öllum áformum um virkjanaframkvæmdir í Ölfusdal áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar um rannsóknarleyfi eða framkvæmdir,“ segir ennfremur í bókuninni.

Fyrri greinBríet og Bjarki með silfur á Smáþjóðamótinu
Næsta greinJólagleði í EM heimagallerí