Undrast framlag til Ingólfs

Arna Ír Gunnarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúar S-lista í Árborg, undrast það að sveitarfélagið fái fimm milljón króna styrk frá Minjastofnun vegna hússins Ingólfs, sem er í einkaeigu.

Eins og Sunnlenska greindi frá á dögunum ákvað Minjastofnun Íslands í samráði við forsætisráðuneytið að ráðast í átaksverkefni sem felur í sér atvinnuskapandi húsafriðunarverkefni um land allt. Á Suðurlandi verður ráðist í nokkur verkefni og eitt þeirra er að gera sökkul undir húsið Ingólf á Selfossi og flytja það á sinn stað í miðbænum.

Málið var rætt á bæjarstjórnarfundi í gær og þar sögðust Arna og Eggert fagna því að framlög frá ríkinu komi til sveitarfélagsins. Um leið lýstu þau undrun sinni á styrkveitingu til sveitarfélagsins, undirritaðri af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, til uppbyggingar og flutnings á húsinu Ingólfi sérstaklega vegna þess að ekki hefur verið lögð fram formleg umsókn vegna verkefnisins af hálfu sveitarfélagsins, enda umrætt hús í einkaeigu.
„Það hlýtur að vera afar sérstakt að sveitarfélag fái úthlutað óumbeðnum styrk að upphæð 5 milljónir króna til uppbyggingar á húsi í eigu einkaaðila,“ segir í bókun Örnu og Eggerts.
Viku áður, þann 13. febrúar, var styrkveiting Minjastofnunar tekin fyrir í bæjarráði Árborgar og þar þakkaði bæjarráð styrkveitinguna án frekari umræðu.