„Undirtektirnar framar öllum væntingum“

Elín Birna Bjarnfinnsdóttir fyrir utan félagsheimilið Stað. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Laugardaginn 5. október næstkomandi verður haldinn svokallaður barnavörumarkaður í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka.

„Ég var búin að vera með þessa hugmynd svolítið lengi að hafa markað á Stað. Þá kom fyrirspurn frá henni Ágústu Sverrisdóttur að hafa barnavörumarkað á Stað og eftir það samtal fór bara allt á fullt hjá okkur,“ segir Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, ein af skipuleggjendum markaðarins og rekstraraðili að Stað, í samtali við sunnlenska.is.

Elín segir að þær Ágústa eigi báðar mikið af vel með förnum barnavörum sem þær vildu gefa framhaldslíf en auk þeirra tveggja sér Ingólfur Hjálmarsson einnig um að skipuleggja markaðinn.

Að sögn Elínar hefur ekki verið áður haldinn barnavörumarkaður sem þessi á Eyrarbakka en þó voru haldnir markaðir á Stað fyrir einhverjum árum.

„Við  auglýstum eftir fólki á þennan markað og ég verð að segja að undirtektirnar voru eiginlega framar öllum væntingum. Uppselt nánast á þremur dögum frá auglýsingu og það eru nokkrir á biðlista,“ segir Elín.

„Á barnavörumarkaðinum verður allt sem við kemur börnum til  sölu, bæði notað og nýtt en þó verður meira af notuðum vörum til sölu. Einnig verður kaffi, vöfflur og fleira til sölu þannig að allir geta kíkt við,“ segir Elín en markaðurinn verður opinn frá klukkan 13-17.

„Stefnan er svo að hafa flóamarkað seinna. Við ætlum að sjá hvernig þetta gengur en miðað við eftirspurn á þennan markað held ég að flóamarkaður gangi alveg,“ segir Elín að lokum.

Fyrri greinHafði lengi dreymt um að opna sitt eigið apótek
Næsta greinMagnús fyrstur til að ljúka hæsta stigi þjálfaranáms