Undirskriftarlistanir afhentir sveitarfélaginu

Undirskriftalistarnir frá undirskriftasöfnuninni í vor varðandi ósk um íbúakosningu um nýja aðal- og deiliskipulagið fyrir miðbæ Selfoss voru afhentir fulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar í dag, föstudag.

Með undirskriftalistunum fylgdi leiðbeinandi umsögn Persónuverndar varðandi meðhöndlun sveitarstjórnar á slíkum listum.

„Þess var óskað vegna yfirlýsingar fyrrverandi framkvæmdastjóra bæjarins um að birta þessa lista opinberlega. Óskin um slíka leiðbeiningu var send á Persónuvernd þann 10. maí síðastliðinn en svar Persónuverndar barst ekki fyrr en 14. ágúst,“ segir Aldís Sigfúsdóttir, ein af ábyrgðarmönnum undirskriftarsöfnunarinnar.

Í svari Persónuverndar kemur m.a. fram að ekki er heimild í lögum til að birta þessa lista opinberlega, gæta þarf meðalhófs við vinnslu gagnanna og virða einkalífsrétt þeirra sem skráðir eru.

Að sögn Aldísar hafa undirskriftalistarnir verið í vörslu Þjóðskrár Íslands frá því að þjóðskrá fékk þá í hendurnar í vor og voru þeir sóttir í gær og geymsluboxin innsigluð af Lögreglunni á Suðurlandi.

„Þá er rétt að minna á það að eftir að Þjóðskrá Íslands hafði lokið úrvinnslu sinni á fjölda undirskrifta í vor þá sendi hún tölvupóst með staðfestingu á gildandi undirskrift á undirskriftalistunum sem nálgast má á vefsíðu Þjóðskrár Íslands Ísland.is, undir mínar síður,“ bætir Aldís við.

Auk Aldísar eru ábyrgðarmenn undirskriftasöfnunarinnar þeir Davíð Kristjánsson og Gísli Ragnar Kristjánsson.

Fyrri greinHamar missti af úrslitakeppninni
Næsta greinÁrborg tapaði toppslagnum