Undirritaðir samningar um stórt skátamót á Selfossi 2017

Í síðustu viku undirritaði Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, samning við Bandalag íslenskra skáta um þátttöku Sveitarfélagsins Árborgar í stóru skátamóti árið 2017.

Um er að ræða 15th World Scout Moot þar sem skátar frá öllum löndum hafa möguleika á að taka þátt en mótið fer s.s. fram á Íslandi dagana 25. – 29. júlí 2017. Á Selfossi er ætlunin að hafa tjaldbúðir fyrir hluta þátttakenda (800 skáta) og nýtist tjaldsvæðið við Suðurhóla mjög vel í það verkefni. Skátarnir sem gista á þessu svæði taka síðan þátt í ýmsum verkefnum tengdum mótinu og er t.d. eitt af því að leggja fram vinnuframlag í verkefni á svæðinu líkt og gróðursetning, hreinsun, stígagerð, þátttaka í menningarviðburður eða annað sem fellur að verkefninu.

Skátafélagið Fossbúar hefur haft milligöngu um verkefnið og sýnir það styrk og metnað félagsins að geta tekið að sér að skipuleggja dagskrá fyrir svona stóran hóp þá daga sem hann er á þessu svæði. Sveitarfélagið Árborg kemur svo inn með ákveðin vinnutengd samfélagsverkefni sem ætlunin er að skátarnir vinni á meðan þeir eru hérna.

Þetta er gríðarlega stórt mót með þúsundum skáta í heildina sem gista á ellefu stöðum á landinu og er Sveitarfélagið Árborg stoltur stuðningsaðili mótsins.