Undirbúningur miðhálendisþjóðgarðs fari fram í samvinnu við sveitarfélögin

Ljósmynd/stjornarradid.is

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga leggur áherslu á að öll undirbúningsvinna vegna miðhálendisþjóðgarðs fari fram í samvinnu við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem eiga land að miðhálendinu eða annarra hagsmuna að gæta.

Þetta kemur fram í bókun á síðasta stjórnarfundi SASS.

„Miðhálendi Íslands er víðfeðmt svæði þar sem fjölbreytt starfsemi fer fram á vegum ólíkra hópa samfélagsins sem eiga það sameiginlegt að þykja vænt um hálendið og náttúru þess. Miðhálendið á sér langa sögu sem tengist auðlindanýtingu og byggð í landinu,“ segir í bókuninni.

Stjórn SASS segir að skipulag og gagnsætt fyrirkomulag um vernd og nýtingu sé mikilvægt til að fólk og fyrirtæki geti nýtt sér allt það sem hálendið hefur upp á að bjóða á sjálfbæran hátt, hvort sem það er til verðmætasköpunar, afþreyingar eða lýðheilsu.

„Hvað orkunýtingu snertir skuli þess gætt að unnið verði í fullu samræmi við rammaáætlun Alþingis og einnig verði hugað að mikilvægi raforkuflutninga. Mikilvægt er að þjóðgarðurinn skuli byggður upp á samstarfssamningum um innviði og rekstur þjóðgarðsins, og að slíkar áætlanir liggi fyrir áður en þjóðgarður verði stofnaður. Þá skal leitast við að rekstur þjóðgarðsins verði eins sjálfbær og unnt er, helst að fullu.“

Stjórn SASS minnir á að skipulagsvald liggur hjá sveitarfélögum og mikilvægt að standa vörð um að svo verði áfram.

Á vettvangi SASS hefur verið skipuð verkefnisstjórn tólf sveitarfélaga á Suðurlandi til að vinna svæðisskipulag á Suðurhálendinu. Sú verkefnastjórn er skipuð kjörnum fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi sem eiga land eða hagsmuna að gæta.

„Stjórn SASS lítur svo á að undirbúningi sé hvergi nærri lokið og eðlilegt sé að í áframhaldandi undirbúningsvinnu verði haft samráð við ofangreinda verkefnisstjórn auk sveitarstjórna allra sveitarfélaga sem land eiga að fyrirhuguðum Miðhálendisþjóðgarði,“ segir í bókuninni.

Fyrri greinEva María keppir á NM 
Næsta greinAnnar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar boðinn út