Undirbúningur í fullum gangi

Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi verður haldin helgina 4.-7. ágúst nk.

Sem fyrr verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna þessa helgi en hápunktarnir eru að vanda morgunmaturinn í tjaldi í bæjargarðinum og sléttusöngurinn á laugardagskvöldið.

Dagskráin hefst að þessu sinni á fimmtudagskvöldi en bæjarbúar eru hvattir til að nýta það kvöld í að skreyta hús sín það kvöld samkvæmt litaskipulaginu sem notað var í fyrra. Best skreyttu húsin verða síðan verðlaunuð á sléttusöngnum.

Olísmótið í knattspyrnu hefst á föstudag og stendur fram á sunnudag og eftir hádegi á laugardeginum verður skemmtidagskrá í bæjargarðinum og fjölbreyttur tjaldmarkaður.

Eins og undanfarin ár hefur Knattspyrnufélag Árborgar umsjón með hátíðinni en verkefnisstjóri í ár er Þórunn Björk Pálmadóttir, nemi í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Þeir sem hafa áhuga á að standa fyrir uppákomum þessa helgi, vera með sölubás á markaðnum, eða hafa góðar hugmyndir að viðburðum geta sent póst á sumaraselfossi@gmail.com.