Undirbúa sölu fasteigna

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt að hefja undirbúning á sölu nokkurra fasteigna í eigu sveitarsjóðs. Um er að ræða einbýlishús, hlut í Seljalandsskóla og nokkrar landspildur í sveitarfélaginu.

Haukur Kristjánsson, oddviti segir söluna vera í samræmi við stefnu sveitarstjórnar um að koma í sölu eignum semnýtast öðrum betur en sveitarfélaginu.

„Við viljum sem dæmi kanna með söluna á Seljalandsskóla, hvort þar séu einhverjir áhugasamir um rekstur ferðaþjónustu,“ segir Haukur.

Hvað jarðarpartana snertir segir hann að þeir séu víða og vonandi geti nágrannar eignast þá. „Það er stefna okkar að hlúa að landbúnaði en vissulega snýst þetta líka um hver vill borga fyrir þetta viðunandi verð,“ segir hann.

Þessu til viðbótar segir Haukur að í ljósi framkvæmda og fjárfestinga sveitarfélagsins sé gott að létta á skuldum á móti. Þar er um að ræða fjárfestingar svo sem kaup á húsnæðinu að Austurvegi 4 á Hvolsvelli og uppbygging við íþróttahúsið.

Fyrri greinKveikt á jólatrénu á Selfossi í dag
Næsta greinSelfoss og HK skiptu með sér stigunum