Undirbúa hönnun kennslusundlaugar við Sunnulækjarskóla

Gert er ráð fyrir álmu fyrir sundlaug á vesturhlið Sunnulækjarskóla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eigna- og veitunefnd Árborgar hefur falið mannvirkja- og umhverfissviði sveitarfélagsins að setja af stað vinnu við undirbúning hönnunar kennslusundlaugar við Sunnulækjarskóla á Selfossi.

Verkefnið er á fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins 2021-2024 en vinnunni sem nú fer af stað á að vera lokið næsta vetur, fyrir fjárhagsáætlunargerð ársins 2022.

Nemendum Sunnulækjarskóla er ekið í sundkennslu í Sundhöll Selfoss en allt frá því skólahúsnæðið var hannað á sínum tíma var gert ráð fyrir kennslusundlaug í álmu vestast í byggingunni.

„Mjög líklega verður um að ræða 25 metra kennslusundlaug. Í fyrsta kasti er hugsunin sú að hún verði eingöngu notuð sem kennslusundlaug og að íþróttir fatlaðra myndu svo færast með sína aðstöðu í húsið með tíð og tíma þ.e. í fimleikasalinn og sundlaugina. Við erum að fara af stað með þarfagreiningarvinnu og sjáum til hvað kemur út úr henni,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar, í samtali við sunnlenska.is.

Upphaflegar teikningar gerðu ráð fyrir sundlaug á 2. hæð hússins en Tómas Ellert segir að öllum líkindum verði fallið frá þeirri hönnun.

„Væntanlega verður sundlaugin á jarðhæð. Rýmið fyrir búningsklefana sem voru ætlaðir fyrir laugina á 2. hæð eru núna æfingasalur taekwondodeildar Umf. Selfoss og verður það áfram, þannig að það þarf að endurhanna þennan hluta hússins,“ segir Tómas Ellert ennfremur.

Fyrri greinFá styrk fyrir framúrskarandi árangur
Næsta greinMelsungen kynnir Elvar til leiks