Undirbúa aðgerðir vegna verkfallsboðunar

Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru nú aðgerðir í undirbúningi eftir að Læknafélag Íslands og Skurðlæknafélag Íslands hafa boðað til verkfalls sem hefst aðfaranótt mánudagsins 27. október, ef ekki semst fyrir það.

Félagar í Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands hafa samþykkt verkfallsboðun í tvo sólarhringa frá miðnætti aðfararnótt mánudagsins 27. október til miðnættis þriðjudagsins 28. október. Næstu verkfallsdagar eru svo 17. til 18. nóvember og 8. til 9. desember.

Læknum á starfstöðvum stofnunarinnar hefur verið gert viðvart um þær aðgerðir sem gripið verður til á HSu. Það hefur verið gert í þeim tilgangi að forðast neyðarástand í þjónustu við sjúklinga á HSu og til að gæta þess að mönnun lækna sé í samræmi við samkomulag um mönnun samkvæmt undanþágulista.

Á verkfallsdögum er skylt samkvæmt lögum að veita nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu sem að mati LÍ er sambærileg læknisþjónusta og veitt er um helgar og á hátíðisdögum. Á HSu er bókað að venju í viðtalstíma lækna á heilsugæslustöðvum og göngudeildum á boðuðuðm verkfallsdögum. Íbúum er bent á að fylgjast með því að morgni verkfallsdaga hvort verkfall sé skollið á og munu þá bókuð viðtöl falla niður. Ítrekað er að nauðsynleg bráðaþjónusta lækna er til staða á HSu komi til verkfalls lækna.

Fyrri greinFrjálsíþróttaakademía við FSu
Næsta greinSunnlendingum boðið í kjötsúpu