Umtalsverð framleiðsluaukning á milli ára

Eldisbleikja. Mynd úr safni.

Umtalsverð framleiðsluaukning hefur orðið á bleikjueldi hjá fyrirtækinu Fjallableikju að Hallkellshólum í Grímsnesi. Að sögn Halldórs Arinbjarnar, framleiðslustjóra, er gert ráð fyrir að slátra um 80 tonnum af bleikju á þessu ári sem er 60% aukning á milli ára.

Starfsleyfi stöðvarinnar hljóðar upp á 100 tonn þannig að stöðin er að nálgast þakið. Bleikjan er afhent við stöðvarhliðið og slátra suður með sjó þaðan sem hún er flutt á erlenda markaði. Hjá stöðinni eru nú þrír starfsmenn í fullu starfi.

Auk bleikjueldisins er Hallkellshólastöðin mikilvirk á sviði seiðaeldis og eru seiðin seld út um allt land. Það eru eigendur eignarhaldsfélagsins Steinhellu ehf. í Hafnarfirði, þeir Jónas Stefánsson rafvirkjameistari og Guðmundur Adolfsson húsasmíðameistari, sem eiga og reka fyrirtækið Fjallableikju ehf. en þeir tóku á leigu fiskeldisstöðina að Hallkelshólum í Grímsnesi til 15 ára.

Að sögn Jónasar hefur engin ákvörðun verið tekin um að sækja um aukið starfsleyfi, fyrst sé að fullnýta það sem er fyrir og höfuð áhersla hefur verið lögð á seiðaeldi. Undanfarið hefur stöðin orðið að auka uppdælingu á vatni en hún notar á milli 200 og 240 sekúndulítra af vatni. Síðasta vetur var fjórum dælum bætt við búnað stöðvarinnar.