Umsvifin aukast í Sögusetrinu

Sigurður Hróarsson og Natasa Horvat hafa í ýmsu að snúast þessa dagana, þau reka Sögusetrið á Hvolsvelli.

Á dögunum var frumsýnt þar nýtt íslenskt leikverk í Söguskálanum, Gestaboð Hallgerðar eftir Hlín Agnarsdóttur, sem einnig leikstýrir verkinu. Í aðalhlutverki er leikkonan Elva Ósk Ólafsdóttir en margir góðir aðilar koma að uppsetningu verksins. Sýningin tekur tæpa klukkustund og hefur fengið mjög góðar viðtökur og miðasala gengur vel.

Í síðustu viku kom hljómsveitin Brother Grass fram á tónleikum í Söguskálanum en Sögusetrið hefur verið að sækja í sig veðrið sem tónleikastaður í Söguskálanum en þar er boðið upp á fjölbreytta menningarviðburði og skemmtanir árið um kring svo sem ritlist, fræði, myndlist, leiklist, auk tónlistar.

Fastar sýningar í Sögusetrinu eru Njálusýningin og Kaupfélagssýning en einnig eru seldir þar minjagripir og bækur svo að það er margt í boði á þessum skemmtilega stað.

Í sumar hefur Sögusetrið tekið að sér upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn í Rangárþingi eystra og er veglega staðið að þeim þætti og forvitnilegt að kíkja þar við.

Fyrri greinAllir rómuðu kartöflusúpuna
Næsta greinUmferð eykst á Lyngdalsheiði