Umsjónarlæknar skipaðir yfir sjúkraflutningum HSU

Jóhann Már Ævarsson og Steinþór Runólfsson hafa verið skipaðir umsjónarlæknar sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Um er að ræða tilraunaverkefni sem hófst í dag, þann 15. júní og stendur til 30. júní á næsta ári. Verkefni umsjónarlækna verða meðal annars að skerpa á og samræma vinnuferla og veita beinan stuðning. 

Samkvæmt tilkynningu frá HSU koma reglulega upp atvik og aðstæður í sjúkraflutningum sem vinnuferlar ná ekki til og getur því þurft að leita eftir ráðgjöf og heimild læknis. Umsjónarlæknarnir verða í góðu samstarfi við framkvæmdastjóra lækninga og yfirlækni bráðaþjónustu.

Í sjúkraflutningum starfa sjálfstæðar fagstéttir, en auk þeirra er einnig þörf á læknisfræðilegri forsjá yfir bráðaþjónustu og sjúkraflutningum vegna lyfjagjafa og sérhæfðra inngripa sem fylgja þjónustunni. Sú forsjá hefur gjarnan verið á höndum framkvæmdastjóra lækninga hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun en þeir hafa á sama tíma mörg önnur ábyrgðarhlutverk og því oft lítinn tíma til að sinna þessum málaflokki og því er nú ráðist í þetta tilraunaverkefni á HSU.

Fyrri greinNýtt lag og myndband frá Kiriyama Family
Næsta greinSkora á lágvöruverðsverslanir að opna á Flúðum