Umhverfisverðlaun á tvo staði

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Skaftárhrepps veitti tveimur aðilum viðurkenningar í málaflokki sínum en afhending viðurkenninganna fór fram á Þorláksmessu.

Aðra viðurkenninguna hlutu þau Pétur Davíð Sigurðsson og Auður Guðbjörnsdóttir, bændur á Búlandi fyrir lofsamlegt og aðdáunarvert framtak í endurbótum á umhverfi bæjarins. Þau Auður og Pétur þykja hafa sýnt gott fordæmi og látið hendur standa fram úr ermum allt frá því þau hófu búskap á Búlandi.

Hin viðurkenningin fór til safnaðar Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri. Á síðasta ári fagnaði kirkjan 150 ára afmæli og var þá ráðist í umfangsmikla viðgerð á kirkjunni, bæði utan- og innanhúss, auk þess sem kirkjugarður og umhverfi kirkjunnar var lagað til.

Í umsögn nefndarinnar var tekið undir orð séra Ingólfs Hartvigssonar er hann sagði að sóknarnefnd Þykkvabæjarklausturssafnaðar hafi gengið til verks með krafti og dugnaði og hafi sannarlega, með hjálp góðs fagfólks, lyft grettistaki með óeigingjarnri og ómældri vinnu. Söfnuðurinn yfirsteig allar þær hindranir sem í vegi þeirri urðu og er uppskeran gullfallegt guðshús bæði að utan sem innan.Kristbjörg Hilmarsdóttir, formaður sóknarnefndar Þykkvabæjarklausturskirkju tók við viðurkenningunni fyrir hönd safnaðarins.

Það sem nefndin hafði í huga við val sitt á þessum tveimur viðurkenningum var að benda á það sem vel er gert í sveitafélaginu, sýna þakklæti og um leið að ýta undir jákvæða umræðu.

Fyrri greinSex þorrablót í Rangárþingi eystra
Næsta greinSætur sigur Þórsara