Umhverfisverðlaun á þrjá staði

Umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar voru afhent á hátíðinni Tvær úr Tungunum sem fram fór á dögunum. Veitt voru verðlaun fyrir snyrtilegasta garðinn, snyrtilegasta fyrirtækið og sérstök hvatningarverðlaun.

Snyrtilegasti heimilisgarðurinn er að þessu sinni Ey á Laugarvatni, eigendur Hörður Bergsteinsson og Elín Bachmann Haraldsdóttir. Við húsið Ey er garður sem þau Bergsteinn Kristjónsson og Sigrún Guðmundsdóttir ræktuðu. Garðurinn þykir mjög snyrtilegur og stílhreinn.

Snyrtilegasta fyrirtækið er Gufuhlíð í Reykholti, eigendur eru Hildur Ósk Sigurðardóttir og Helgi Jakobsson. Gufuhlíð er stærsti agúrkuframleiðandi landsins. Þau Helgi og Hildur hafa á síðustu árum lagt metnað í að gera umhverfi stöðvarinnar einstaklega snyrtilegt og hreinlegt og eru þau góðir fulltrúar matvælaframleiðslunnar í Bláskógabyggð.

Hvatningaverðlaunin fengu ábúendur á Ljósalandi í Laugarási, þau mæðgin Ragnheiður Jónasdóttir, Böðvar Þór Unnarsson og Jónas Unnarsson. Á Ljósalandi var í upphafi rekin garðyrkjustöð en þó nokkuð er síðan hún var aflögð og hefur verið í allnokkuri niðurníðslu um árabil. Nýir eigendur síðustu missera hafa lyft grettistaki í umhverfismálum og endurnýjun allri svo eftir hefur verið tekið.

Fyrri greinEinstaklingsíþrótt með liðsanda
Næsta greinTruflun á heitavatnsþrýstingi