Umhverfisvæn áfyllingarstöð opnar á Selfossi

Kolbrún Bjarnadóttir, starfsmaður Litlu garðbúðarinnar, við áfyllingarstöðina í versluninni. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nýverið opnaði áfyllingarstöð í Litlu garðbúðinni við Austurveg 21 á Selfossi, sú fyrsta sinnar tegundar á Suðurlandi.

„Við rákumst á þessar hreinlætisvörur á vafri okkar á netinu og fannst alveg tilvalið að bæta þeim við vöruúrvalið okkar. Þær uppfylltu öll skilyrðin um að fá að vera með; vandaðar, fallegar, nytsamlegar og góðar fyrir umhverfið. Minna plast, aukið hreinlæti, 100% umhverfisvænt og vegan. Það er auk þess miklu skemmtilegra að þrífa með fallegum vörum sem ilma vel og eru góðar fyrir umhverfið,“ segir Dagrún Guðlaugsdóttir, eigandi Litlu garðbúðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Umræddar vörur eru frá breska vörumerkinu Fill og innihalda aðeins lífbrjótanleg efni. „Fill vörurnar eru með sínar eigin umbúðir sem eru úr hertu og endurnýttu gleri. Á þeim eru líka upplýsingar um innihald vörunnar. Þú kaupir umbúðirnar með áfyllingu hjá okkur eða öðrum söluaðila Fill og þegar varan er búin þá er hægt að koma með tómu umbúðirnar og kaupa áfyllingu,“ segir Dagrún.

Mikilvægt að hreinsiefni séu merkt rétt
Þó að það tíðkist víða að fólk komi með sín eigin ílát á áfyllingarstöðvar þá er svo ekki á þessari stöð og er góð ástæða fyrir því.

„Við höfum eingöngu verið að selja áfyllingar í viðeigandi umbúðir frá Fill. Okkur finnst mikilvægt að öll hreinsiefni séu rétt merkt. Einu sinni þótti ekkert tiltökumál að geyma t.d. terpentínu í gamalli kókflösku með tilheyrandi slysahættu en það er sem betur fer liðin tíð að ég held. Með því að fylla einungis á upprunalegar umbúðir veitir það meira öryggi um hvaða efni þú ert með í höndunum og rétt viðbrögð ef svo vill til að þau komist í litlar hendur eða munna. Allur er varinn góður þótt engin skaðleg innihaldsefni séu í Fill vörunum,“ segir Dagrún en á áfyllingarstöðinni eru hægt að fá öll helstu hreinsiefni fyrir heimilið.

„Viðtökurnar hafa verið mjög jákvæðar. Það eru þó nokkrir sem hafa kynnst þessum vörum og eru himinlifandi yfir að geta nú keypt þær á Selfossi. Margir eru líka búnir að koma og kynna sér vörurnar og eru að færa sig smátt og smátt yfir í Fill eftir því sem plastbrúsarnir sem fólk hefur áður verið að nota klárast,“ segir Dagrún að lokum.

Fyrri greinSjö HSK met í bikarkeppninni
Næsta greinEnginn með staðfest smit á Suðurlandi