Umhverfisvæn verslun á nýjum stað

Síðastliðinn laugardag opnaði barnafataverslunin Beroma nýja verslun í Faxafeni 9 í Reykjavík og sameinaðist um leið versluninni Fiðrildinu.

„Við erum gríðarlega ánægðar hvað viðskiptavinir okkar hafa tekið vel í breytingarnar og margir lýst því hversu ánægðir þeir eru með þetta allt saman. Við vorum með tilboð á opnunardeginum en við ákváðum að halda tilboðum aðeins lengur og er því ennþá hægt að gera góð kaup á mikið af flottum vörum og því ættu allir að geta dressað sig upp fyrir 17. júní. Þó að verslunin sé staðsett í Reykjavík er minsta mál að fá að nálgast vörur á Selfossi samdægurs eða daginn eftir að pantað er,“ segir Selfyssingurinn Berglind Rós Magnúsdóttir, eigandi Beroma.

Beroma var áður í mun minna rými og segir Berglind að verslunin hafi alveg verið komin að þolmörkum hvað varðar pláss. „Við urðum að huga að einhverjum breytingum og leituðum lengi vel að hentugu húsnæði hér á Selfossi. Fiðrildið varð á endanum fyrir valinu þar sem húsnæðið er mun hagkvæmari kostur en það sem okkur bauðst hér á Selfossi,“ segir Berglind.

Berglind segir það hafi verið skemmtilegt ferli að sameina Beroma og Fiðrildið. „Það hefur alltaf verið markmið Beroma að bjóða upp á barnavörur sem eru framleiddar á umhverfisvænan máta og að öll framleiðsla á vörunum sé siðgæðisvottuð. Okkur finnst lágt vöruverð aldrei afsaka lélegar vinnuaðstæður eða þrælkunarvinnu. Fiðrildið hefur alla tíð boðið uppá notuð barnaföt á mjög hagstæðu verði. Öll fötin eru vandlega valin inn og eiga sér því hellings líftíma ennþá. En eitt af því sem verndar umhverfið okkar er einmitt að endurnýta heilan fatnað,“ segir Berglind.

Bæði Beroma og Fiðrildið hafa hingað til boðið uppá hönnun eftir aðra íslenska hönnuði. „Við sameininguna getum við státað af enn betra úrvali af íslenskri hönnun fyrir börn og er það eitt af markmiðum okkar að bæta verulega þar við. Það verður áfram mikil áhersla á að eiga gott úrval af fatnaði sem hentar strákum en ein af nýjungum hjá okkur eru meðal annars úrval af taubleium og vörum sem tengjast þeim,“ segir Berglind að lokum.

Fyrri greinHeimsókn frá Kaupmannahöfn á þjóðhátíðardegi Dana
Næsta greinEldri borgarar í sumarferð