Umhverfisstofnun vill hertari kröfur

Díoxínmengun frá sorporkustöðinni á Kirkjubæjarklaustri mældist 5,8 ng/m3 í mælingu í janúar sl. en 9,5 ng/m3 í mælingu árið 2007.

Engin mörk eru í gildi fyrir losun díoxíns frá stöðinni en Umhverfisstofnun hefur lagt til við umhverfisráðuneytið að stöðinni verði gert að uppfylla hertari kröfur, þ.á.m. um díoxín.

Í öðrum mælingum er stöðin á Klaustri yfir mörkum hvað varðar lífræn efnasambönd en innan skekkjumarka hvað varðar kolmónoxíð. Umhverfisstofnun mun á næstu dögum ákveða hvernig brugðist verður við þessum niðurstöðum.

Niðurstöður mælinganna á Kirkjubæjarklaustri hafa verið sendar til allra íbúa Skaftárhrepps, með bréfi frá sveitarstjórn. Í því kemur m.a. fram að starfsleyfi stöðvarinnar gildi til desember 2012 og vill sveitarstjórn fá álit sérfræðinga s.s. sóttvarnarlæknis og umhverfisyfirvalda um viðbrögð þeirra við niðurstöðunum, til að geta tekið upplýsta ákvörðun um framhald brennslunnar.

„Verði ljóst að heilsu manna sé hætta búin af völdum brennslunnar mun sveitarstjórn endurskoða rekstur stöðvarinnar. Sveitarstjórn er það ljóst að miklar fjárhagslegar skuldbindingar eru í húfi vegna íþróttamannvirkja og reksturs þeirra, en orkunýting úr sorpbrennslu var forsenda þeirrar uppbyggingar,“ segir í bókun sveitarstjórnar frá 15. mars.

Fyrri greinGlaumur bauð lægst í sandfangarann
Næsta greinSýknaður af ritalínsmygli