Umhverfisnefndin sótti hart að sveitarstjóranum

Frá fundi sveitarstjóra og umhverfisnefndar Hvolsskóla. Ljósmynd/Rangárþing eystra

Umhverfisnefnd Hvolsskóla fundaði með Antoni Kára Halldórssyni, sveitarstjóra Rangárþings eystra, á skrifstofu sveitarfélagsins í síðustu viku.

Farið var yfir þau málefni sem að hafa brunnið á nefndinni varðandi umhverfismál í sveitarfélaginu. Þar bar mest á sorpmálum, rætt um merkingar á sorptunnum, moltu og ýmislegt fleira. Umhverfisnefndin hefur líka tekið saman tölur yfir matarsóun í skólanum sem þau fóru yfir og mjög áhugaverðar umræður spunnust upp um hin ýmsu mál tengd umhverfinu.

Anton Kári fór vel yfir málin með nefndinni en oft var hart að honum sótt og höfðu nemendur margt til málanna að leggja sem var gaman að hlýða á.

Umhverfisnefnd Hvolsskóla er skipuð einum nemenda úr hverjum bekk ásamt skólastjóra, kennurum og starfsfólki. Þórunn Óskarsdóttir hefur leitt nefndina og er hún verkefnisstjóri Grænfánans í Hvolsskóla.

Fyrri greinMastellone svaraði þegar mest á reyndi
Næsta greinÖrmagna ferðamaður sóttur á Vatnsrásarhöfuð