Umhverfisnefnd ML hlaut umhverfisviðurkenningu

Menntaskólinn að Laugarvatni tók við umhverfisverðlaunum Bláskógabyggðar síðastliðinn fimmtudag. Verðlaunin voru afhent umhverfisnefnd skólans fyrir framúrskarandi starf í umhverfismálum, þar sem sérstök áhersla var lögð á gróðursetningarverkefnið á Langamel þar sem gróðursettar hafa verið 2.479 birkiplöntur.

Við afhendingu viðurkenningarinnar voru viðstödd Hallgrímur Daðason formaður umhverfisnefndar ML, Kamil Jan Lewandowski og Ásgerður Elín Magnúsdóttir frá umhverfisnefnd Bláskógabyggðar, Helgi Kjartansson oddviti og Jóna Katrín Onnoy Hilmarsdóttir skólameistari. Einnig voru við afhendinguna nemendur sem hafa starfað ötullega í umhverfisnefnd skólans og tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.

Menntaskólinn að Laugarvatni vinnur markvisst að umhverfismálum í sveitarfélaginu en hann er meðal annars Grænfánaskóli. Nemendur ML hafa sýnt ótrúlegan áhuga í starfi umhverfisnefndarinnar og hafa lagt hart að sér við að bæta umhverfi sitt og samfélagið. Verkefnið á Langamel hefur verið unnið í samvinnu við Land og skóg.

Fyrri greinSelfoss velgdi Valsmönnum undir uggum
Næsta greinValur stýrði ferðinni á Hlíðarenda