Umgjörð utan um ferðaperlur við ströndina

Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar Ölfuss og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar klipptu á borðann. Þeim til halds og trausts voru Ólafur Rafnar Ólafsson, atvinnu- og viðburðafulltrúi Árborgar og Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri hjá Sveitarfélaginu Ölfusi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vitaleiðin, ný ferðaleið við suðurströndina, var formlega opnuð í dag. Leiðin var fyrst kynnt í fyrra en það var ekki fyrr en nú, í þriðju tilraun, sem tókst að opna leiðina formlega með borðaklippingu á Eyrarbakka.

„Já, loksins er þetta að verða að veruleika, þessi nýja gátt inn á Suðurlandið. Þetta er í þriðja sinn sem við reynum að opna formlega en vegna samkomutakmarkana hefur það ekki tekist fyrr en núna,“ segir Dagný Hulda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is. Hún bætir við að Vitaleiðin verði mikil lyftistöng fyrir Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri, sem séu nú að fá verðskuldaða athygli.

Dagný Hulda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, flytur ávarp. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Táknræn og flott opnunargátt
„Það er búið að vera ákall í svolítinn tíma um að fá ferðamenn til að dreifast víðar um svæðið og þetta er algjörlega svarið við því. Á Suðurlandi hefur verið fullt af ferðamönnum á síðustu árum en þeir hafa mikið verið að sækja sömu staðina. Vitaleiðin er steinsnar frá höfuðborginni, steinsnar frá gosstöðvunum, hér er Suðurstrandarvegurinn beint frá Keflavík inn í okkar landshluta og Vitaleiðin er táknræn og flott opnunargátt inn á Suðurlandið,“ segir Dagný ennfremur.

Að sögn Dagnýjar er Vitaleiðin fyrst og síðast fyrir heimamenn en svo sé leiðin einnig viðbót við áhugaverða staði fyrir Íslendinga sem koma inn á svæðið.

„Það getur verið fólk dagsferð frá höfuðborgarsvæðinu eða gestir okkar sem dvelja hér í sumarhúsum um allt Suðurland. Og svo auðvitað líka erlenda ferðamenn. Oft er grundvöllur þjónustu og reksturs að það séu erlendir ferðamenn líka sem sækja staðina heim og ég held að þetta sé ágæt búbót fyrir þá rekstraraðila sem eru á þessari leið. Núna er komin umgjörð utan um þessar perlur sem eru hér í nágrenninu, af því að það þarf að pakka þeim inn og færa fólki á þennan hátt.“

Eva Þórey og Ásdís Karen Jónsdætur sungu tvö lög við undirleik föður síns, Jóns Óskars Erlendssonar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tilvalið fyrir þá sem vilja ferðast hægar
Vitaleiðin nær frá Selvogi í Ölfusi að Knarrarósvita í Árborg og er leiðin tæplega 50 km löng, eftir því hvort ekið er eftir vegi eða strandlínan sé nýtt. Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Vitaleiðin býður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana, nýtt strandlengjuna eða þá göngustíga, sem búið er að leggja meðfram ströndinni, gengið, hlaupið, farið ríðandi á hestum eða jafnvel hjólað.

Á Vitaleiðinni geta gestir upplifað fjölbreytta náttúru og dýralíf svæðisins, þá sögu og menningu sem svæðið býr yfir og fjölbreytta afþreyingu og þjónustu. Vitaleiðin er tilvalin fyrir þá sem vilja ferðast hægar yfir, njóta og vinda ofan sér með aðstoð kyrrðarinnar í náttúrunni en um leið soga í sig orkuna frá Atlantshafinu.

Klippt á borða á Eyrarbakka
Vitaleiðin er unnin í samvinnu Markaðsstofu Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Ölfuss ásamt rekstraraðilum á svæðinu. Þessir aðilar boðuðu til opnunarhátíðarinnar í dag þar sem flutt voru ávörp og tónlistaratriði áður en klippt var á borða á táknrænan hátt á sjóvarnargarðinum við samkomuhúsið Stað.

Íslendingar og aðrir ferðamenn eru hvattir til að upplifa Vitaleiðina og allt það sem hún hefur upp á að bjóða. Nánari upplýsingar um leiðina má finna á www.south.is/vitaleidin.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinKvöldvökur með frábærum listamönnum í Lystigarðinum
Næsta greinÆgir og Uppsveitir náðu í stig