UMFÍ vill stofna lýðháskóla á Laugarvatni

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur áhuga á að stofna og reka lýðháskóla á Laugarvatni. Horft er til húsnæðis íþróttakennaraháskólans á Laugarvatni.

Háskólaráð Háskóla Íslands ákvað í febrúar á þessu ári að flytja námið frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Gangi það eftir fækkar opinberum störfum í Bláskógabyggð. Með stofnun lýðháskóla UMFÍ á Laugarvatni er spornað við fækkun starfa auk þess sem valmöguleikum námsmanna að loknu stúdentsprófi fjölgar.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, segir þörf fyrir þessari tegund skóla fyrir íslensk ungmenni sem hafi lokið stúdentsprófi og velti framtíðinni fyrir sér. Þá bendir hann á að lýðháskólar eigi upp á pallborðið hér á landi sem valkostur nú um stundir, ekki síst ef teknar verði upp meiri fjöldatakmarkanir í íslenskum háskólum eins og á Norðurlöndunum.

„Ef það verður að veruleika er lýðháskóli góður kostur fyrir þá sem vilja læra eitthvað annað en boðið er upp á í háskóla og vilja einnig fá tíma til að átta sig á hvað viðkomandi vill læra í háskóla. Margir innan og utan UMFÍ hafa farið í erlenda lýðháskóla og segjast búa að því í lífinu. Kannski þarf stúdentspróf ekki að vera skilyrði fyrir námi í slíkum skóla,“ segir hann.

Haukur sér fyrir sér að í lýðháskóla á Laugarvatni verði t.d. boðið upp á sérhæft nám sem tengist ferðamennsku, íþrótta- og útivistartengt nám og leiðtogahæfileikar ungs fólks verði efldir.

„UMFÍ hefur bakgrunn í lýðháskólum og við getum leitað leiðsagnar og samvinnu hjá systursamtökum okkar í Danmörku þar sem mikil þekking er á slíkum skólum. Miklir möguleikar felast því í stofnun lýðháskóla á Laugarvatni ef hið opinbera er tilbúið til að vinna með okkur að því og mikilvægt er að vinna þetta allt með og í sátt við menntamálayfirvöld í landinu, Ég legg áherslu á það, “ segir Haukur Valtýsson.

UMFÍ hefur lengi haft áhuga á að koma að rekstri lýðháskóla. Raunhæfari möguleiki er á því nú en áður því Alþingi samþykkti í júní þingsályktunartillögu um stofnun lýðháskóla á Íslandi. Í ályktuninni felst að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram frumvarp um skólana á Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2017.

UMFÍ er landssamband ungmennafélaga. Sambandsaðilar eru 18 héraðsambönd og 11 félög með beina aðild. Alls eru um 300 félög innan UMFÍ með yfir 100 þúsund félagsmenn.