UMFÍ hættir rekstri ungmennabúðanna á Laugarvatni

Íþróttamiðstöðin á Laugarvatni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stjórn Ungmennafélags Íslands hefur ákveðið að hætta starfsemi Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni. Nú vinnur starfsfólk UMFÍ að því að upplýsa skólastjórnendur um allt land um ákvörðunina og undirbúa flutning úr húsinu.

Forsaga málsins er sú að starfsemi Ungmennabúðanna var lokað tímabundið um miðjan febrúar 2023 vegna myglu og rakaskemmda.

Í kjölfarið upplýsti Bláskógabyggð, sem eigandi húsnæðisins, UMFÍ, að sveitarfélagið hyggðist ekki fara í þær framkvæmdir á húsinu sem nauðsynlegar eru til að halda starfsemi áfram. Þess í stað opnaði sveitarfélagið á þann möguleika að UMFÍ myndi kaupa húsnæði Ungmennabúðanna af sveitarfélaginu og halda starfseminni áfram.

Stjórn og stjórnendur UMFÍ hafa skoðað og metið framkvæmda- og kostnaðaráætlanir í tengslum við það til framtíðar. Það er hins vegar mat stjórnenda og stjórnar UMFÍ að áætlaður kostnaður við kaup og nauðsynlegar framkvæmdir á húsnæðinu sé af þeirri stærðargráðu að ekki er skynsamlegt fyrir UMFÍ að takast eitt á hendur slíka skuldbindingu.

Í tilkynningu frá UMFÍ segir að stjórn félagsins þyki afar miður að þetta sé niðurstaðan og hún sé þar með tilneydd til að ljúka starfsemi Ungmennabúðanna á Laugarvatni.

UMFÍ hefur starfrækt Ungmennabúðir frá árinu 2005 og frá árinu 2019 á Laugarvatni. Ungmennabúðirnar hafa verið í gömlu íþróttamiðstöðinni sem margir þekkja frá því íþróttakennaraskóli var á Laugarvatni.

Fyrri greinGular viðvaranir framlengdar
Næsta greinHelgi ráðinn framkvæmdastjóri Framsóknar