Umferðartafir við Eystri-Rangá

Björgunarsveitin Dagrenning og Flugbjörgunarsveitin Hellu skiptast á að vera á bát fyrir neðan brú eitthvað kemur upp á við vinnuna á brúnni. Ljósmynd/Þorsteinn Jónsson

Fimmtudaginn 4. apríl vinna Veitur áfram að endurnýjun hitaveitulagnar yfir Eystri Rangá en unnið hefur verið að undirbúningi framkvæmdarinnar undanfarna daga.

Frá kl. 18:00 á fimmtudaginn má því búast við takmörkunum á umferð yfir brúnna. Önnur akgreinin verður þó opin og umferð verður stýrt yfir brúnna svo allir ættu að komast leiðar sinnar.

Lokað fyrir heita vatnið
Vegna endurnýjunar lagnarinnar verður lokað fyrir heita vatnið hjá viðskiptavinum Rangárveitna sem búa austan við Eystri Rangá, þ.e. á Hvolsvelli og nágrenni, á fimmtudag kl. 16:00 og fram á föstudagsmorgun.

Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Í kuldatíð er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.

Í tilkynningu frá Veitum biðst starfsfólk fyrirtæksins velvirðingar á óþægindum vegna þessa.

UPPFÆRT KL. 14:00: Í upphaflegri frétt var sagt að brúnni yrði lokað á hluta framkvæmdatímans en nú hefur komið í ljós að önnur akreinin verður alltaf opin.

Fyrri greinGrýlupottahlaupið 50 ára
Næsta greinAlexander framlengir til tveggja ára